Powerade vetrarhlaupin !

Fimmtudaginn 14. okt. fer fram fyrsta hlaup úr Powerade - hlauparöðinni. Verður það haldið annan fimmtudag í hverjum mánuði fram í mars 2010. Lagt er frá Árbæjarsundlauginni kl. 20:00. Miðar eru seldir í anddyri laugarinnar á kr. 300 og einnig í forsölu í Afreksvörum í Glæsibæ.

http://www.hlaup.is/dagbok.asp?cat_id=5&module_id=220&element_id=22641


Æfingaáætlun vikuna 10/10 - 17/10´10

Mánudagur: (Brekkusprettir). Hlaupið rólega að brekkunni í Garðaholti á móts við Hliðsnes (2.5 km.) og síðan teknir brekkusprettir 3*100 m eða 5*100 m á góðu hlaupaálagi. Síðan farið heim sömu leið eða Garðaholtshringurinn kláraður á heimleið.

Miðvikudagur: (Fartlek). Hraðaleikur þar sem sprettir (ath. aldrei á fullu) eru mislangir (t.d 150-300 m) með mislöngum hvíldum. Undirlag breytilegt (gras, malarstígar, malbik) og t.d. er gott að auka aðeins hraðann í brekkum. Sem sagt frjálst, en rétt að skokka ca. 1,5 km upphitun og 1,5 km í í lokin. Dæmi um hluta úr fartlek æfingu: Hita upp í 1,5 km rólega, hlaupa 200 m á auknum hraða, hlaupa rólega í 30-60 sek, hlaupa 100 m á auknum hraða, hlaupa rólega í 30 sek, hlaupa 300-400 m á auknum hraða, hlaupa rólega í 1-2 mínútur osv.frv.

Laugardagur: (Lengri hlaup). Áhersla lögð á lengri hlaup en hina daga vikunnar.


Veðrið leikur við skokkara !

Það er ekki annað hægt að segja en að veðrið leiki við skokkara þessa dagana. "Hefur verið gott og verður gott næstu daga."

Við höfum verið að setja upp æfingaáætlanir fyrir síðastliðnar vikur sem hefur gefist vel. Athygli skal vakin á því að ef einhverjum þykir þær helst til erfiðar, þá á viðkomandi bara að draga úr magninu eftir getu sinni. Sprettir á brautum og brekkusprettir, ásamt áfangahlaupum eru æfingar sem skila sér í auknu úthaldi síðar. Við reynum að setja þetta upp svo að virki aðlaðandi fyrir byrjendur sem lengra komna.

Það er enn pláss fyrir nýliða í skokkhópnum, en athygli er vakin á því að við viljum hafa rúmt á okkur er við örkum um víðlendur Álftaness. Það er því betra að mæta sem fyrst til að tryggja nægt rými.


Æfingaáætlun vikuna 3/10 - 10/10´10

Mánudagur: (Brekkusprettir). Hlaupið rólega að brekkunni í Garðaholti á móts við Hliðsnes (2.5 km.) og síðan teknir brekkusprettir 3*100 m eða 5*100 m á góðu hlaupaálagi. Síðan farið heim sömu leið eða Garðaholtshringurinn kláraður á heimleið.

Miðvikudagur: (Áfangaþjálfun). Hlaupnar vegalengdir frá 2.5 - 10 km. Upphitun í ca. 25% vegalengdar+6*100 - 500 m á áætluðu keppnisálagi. Skokka eða ganga í 2-3 mín. á milli álagskafla.

Laugardagur: (Lengri hlaup). Áhersla lögð á lengri hlaup en hina daga vikunnar.


Æfingaáætlun vikunnar 26/9 - 3/10´10

Mánudagur: (Sprettir). Upphitun 2.5 - 5 km og síðan teknir sprettir í kringum fótboltavöllinn. Sprettir skulu standa í minnst 10 mín. t.d. 5*2 mín. með 1 mín rólegu skokki eða labbi á milli. Allt eftir áherslum hvers og eins.

Miðvikudagur:  (Áfangaþjálfun). Hlaupnar vegalengdir frá 2.5 - 10 km. Upphitun í ca. 25% vegalengdar+6*100 - 500 m á áætluðu keppnisálagi. Skokka eða ganga í 2 mín. á milli álagskafla.

Laugardagur: Áhersla lögð á lengri hlaup en hina daga vikunnar. 


Stofndagur Skokkhóps Álftaness

Miðvikudagurinn 15. september 2010 var stofndagur Skokkhóps Álftaness. Í tilefni dagsins var boðið upp á að hlaupa nokkrar mismunandi vegalengdir, sem hafa verið mældar út og settar á kort í íþróttahúsinu. Er það gert til hægðarauka fyrir þá sem vilja vita hve langt er hlaupið og hvaða leið sé best að fara.

Ekki voru veðurguðirnir á okkar bandi þennan stofndag Skokkhóps Álftaness, norðan 12-15 metrar og svalt. Enda mættu einungis 11. manns í hlaupið. En það voru brosmildar hetjur sem luku hlaupi þennan dag og eftir situr, að nú eiga Álftnesingar sinn eigin hlaupahóp sem á bara eftir að vaxa og dafna í fyllingu tímans. 


Skokkhópur Álftaness

Enginn almennur hlaupahópur hefur áður verið til á Álftanesi. Sumir hafa verið að hlaupa á eigin vegum en hafa ekki haft tækifæri til þess að hlaupa með öðrum, vegna þess að almenningshlaup hér hefur ekki farið fram með skipulögðum hætti hingað til.

Að fara í næstu bæjarfélög er jú einn kosturinn, en hver vill nú ekki geta haft tækifæri til þess að hlaupa í eigin bæjarfélagi, og losna við að fara úr einum stað á annan bara til þess að hlaupa með öðrum á meðan aðstaðan er til staðar hér.    

Nú er tækifæri fyrir almenning  á Álftanesi að skrá sig í hlaupahóp og stunda  útihlaup með öðrum og njóta okkar fallegu náttúru hér sem og víðar. Stofnaður hefur verið hlaupahópur undir formerkjum UMFÁ sem mun bera nafnið "Skokkhópur Álftaness".  Borið hefur á fyrirspurnum til UMFÁ um útihlaup í gegnum tíðina svo að nú hafa nokkrir aðilar er hafa verið duglegir að hlaupa úti í sumar, tekið sig saman og látið þetta verða að veruleika.

Tilgangur og markmið Skokkhóps Álftaness er að gefa almenningi tækifæri til þess að hittast, og stunda útihlaup, göngu eða aðrar styrktaræfingar. Allt eftir áherslum hvers og eins.

En eins og við vitum hefur almenningshlaup verið í mikilli sókn síðustu árin. Hlaupahópar hafa sprottið upp eins og gorkúlur, og keppnishlaup fyrir almenning eru orðnir mjög tíðir viðburðir. Þar hefur margur fundið keppnismanninn í sjálfum sér og getað borið sig saman við mann og annan og uppgötvað það að lengi getur lifað í gömlum glæðum. En eitt hafa dæmin sannað, það er það að aldrei er of seint að byrja. Því einstaklingur sem kemur sér reglulega út til hreyfinga finnur fljótt til betri líðan. En það er með hlaup eins og annað að viðkomandi uppsker eins og hann sáir.

Með tilkomu þessara glæsilegu íþróttamannvirkja hér, hefur skapast vettvangur fyrir skokkara og fleiri að hittast og að njóta í lok hvers hlaups, þeirrar þjónustu sem hér er í boði eins og sundlaug, pottar, gufuböð og fleira. Þjónusta sem allir geta verið stoltir af en virðist vera vannýtt ef eitthvað er. Getur góður hlaupahópur glætt svona mannvirki lífi og verið góð viðbót í okkar samfélagi.

Viljum við sem stöndum að þessu  framtaki eindregið hvetja Álftnesinga til þess að koma og prófa að vera með. "Betra er seint en aldrei. En samt aldrei of seint".


Æfingadagar Skokkhóps Álftaness

Mæting er fyrir utan íþróttahúsið á eftirtöldum dögum.

 Mánudagar kl. 17:30 - Miðvikudagar kl. 17:30 - Laugardagar kl. 10:00


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband