Æfingaáætlun hlaupanámskeiðs SÁ og Sigga P.

Hér má finna æfingaáætlun Sigga P. fyrir þátttakendur í hlaupanámskeiðinu!
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlaupanámskeið Sigurðar P. og SÁ

Hlaupanámskeið fyrir byrjendur og lengra komna

Hlaupanámskeið Skokkhóps Álftaness byrjar mánudaginn 27. maí kl. 17:30 fyrir utan íþróttahúsið.

Þjálfari: Sigurður P. Sigmundsson hlaupaþjálfari.

Fyrirkomulag verður eftirfarandi: Á mánud og föstud kl. 17:30 er blönduð æfing
þar sem byrjað er á léttu skokki í upphitun, þá teknar teygjur og
liðleikaæfingar, létt hlaupahopp, síðan nokkrar hraðaukningar og loks létt niðurskokk. Á æfingunum verður m.a. farið yfir líkamsbeitingu/hlaupastíl og fjallað um þætti er varða þjálfun.

Á miðvikudögum kl. 17:30 verður rólegt hlaup, fyrst um sinn 2-4 km sem lengist smá saman.

Æfingaáætlun fyrir hópinn verður sett á bloggsíðu Skokkhóps Álftaness http://skokkalftanes.blog.is og facebook https://www.facebook.com/groups/skokkhopuralftaness/

Námskeiðinu lýkur 24.júní með þátttöku í Jónsmessuhlaupinu í Laugardal
en þar er boðið upp á 5 og 10 km. Þjálfari mun áður fara sérstaklega
yfir undirbúning fyrir þátttöku í almenningshlaupi.

Námskeiðsgjald verður á bilinu 5-7 þúsund. Fer eftir fjölda þátttakenda.

Vinsamlegast staðfestið þátttöku sem fyrst hjá Friðþjófi á netfangið diddo@hive.is
Nánari upplýs. Friðþjófur s: 8643191 og Lilja s: 8216370


Vel heppnuð hlaupakynning í boði skokkhópsins

Hlaupakynningin hjá Sigurði P. Sigmundssyni heppnaðist vonum framar og mættu á fjórða tug manna til á hlíða á Sigurð flytja fyrirlestur um hlaup og hlaupatengd málefni.

Þátttakan var með eindæmum því mótshaldarar héldu að aðsókn yrði dræm sökum þess að forkeppni Eurovision fór fram á sama tíma, en annað kom á daginn. Í lok fyrirlestrar sýndu nær allir gestir mikinn áhuga á að taka þátt í hlaupanámskeiði fyrir byrjendur og lengra komna sem hefst 27. maí og verður fyrirkomulag námskeiðsins auglýst á næstu dögum. 


Hlaupakynning

Hlaupakynning fyrir byrjendur og lengra komna hjá Skokkhópi Álftaness

Skokkhópur Álftaness býður íbúum Álftaness, Garðabæjar og öðrum, óháð búsetu, til kynningarfundar um hlaup og hlaupatengd efni.

Skokkhópurinn hefur fengið til sín Sigurð P. Sigmundsson hlaupaþjálfara og fyrrum íslandsmeistara í maraþonhlaupi til að halda fræðsluerindi um hlaupaþjálfun þar sem farið er yfir þau grunnatriði sem skipta máli fyrir þá sem eru að byrja að hreyfa sig.

Í erindi Sigurðar verður m.a. fjallað um eftirfarandi: Tilgang, markmiðssetningu, áhrif hreyfingar, samsetning þjálfunar, æfingaáætlanir, mataræði, útbúnað, meiðslaforvarnir og undirbúning fyrir þátttöku í almenningshlaupum.

Staður og stund: Í sal Álftanesskóla, fimmtudaginn 16. maí kl. 20:00 (aðgangur ókeypis).

Í framhaldi af þessum kynningarfundi mun skokkhópurinn skrá þá niður sem gætu hugsað sér að æfa samkvæmt byrjendaáætlun Sigga P. með vikulegum heimsóknum hans og eftirfylgni fyrst um sinn. En það er háð þátttöku hvort að af því geti orðið.

Já, kæru skokkarar, nú er lag að koma skipulagi á hlaupin og skella sér á kynningu hjá Sigga P. Vorið er komið og tilvalið að setja sér markmið fyrir sumarið. Nánari upplýsingar: https://www.facebook.com/groups/skokkhopuralftaness/ Friðþjófur- diddo@hive.is Lilja- liljavattnes@hotmail.com


Skokkfréttir, Skokkhóps Álftaness

Eftir að vetur fór að styttast og daginn að lengja, þá varð loksins betra að athafna sig á hlaupunum, eftir langan og strangan vetur sem oft var hlaupurum erfiður. Er birtunni og lengingu dagsins samfara því tekið opnum örmum, um leið og fyrstu farfuglarnir fá kynningu í fjölmiðlum, líkt og þjóðhöfðingjar væru þar á ferð. Já það er ljóst að vorið er í nánd og vegna þess erum við fljót að gleyma harðindum vetrarins.

Nú eru almenningshlaupin að hefjast, og byrja á Víðavangshlaupi ÍR(5 km) á sumardaginn fyrsta og þar á eftir Vormaraþon FM (21 og 42 km). Eftir það er mjög stutt á milli hlaupa fram á haustið, en mjög mikil aukning og framboð er á almenningshlaupum seinustu árin. Margur vill vera með í þessum hlaupum og setja sér markmið, en aðrir vilja bara vera með og njóta þess að hitta aðra hlaupara.

Ég vil minna á hlaupanámskeiðið sem við höfum áður auglýst og er laugardaginn 28. apríl. Viðtökur hafa verið góðar og er ekki vafi á að þetta á eftir að vera gott innlegg í hlaupaflóru okkar Álftnesinga. Skráning er hjá Friðþjófi í netf. diddo@hive.is  

Einn af vorboðum okkar er það að fjölga fer í umferð gangandi og hlaupandi vegfarenda. Erum við SÁ-hlauparar engin undantekning þar, því þátttaka hefur aukist seinustu daga. Reynum við að taka vel á móti nýju fólki og leiðbeina þeim gegnum fyrstu skrefin. Verður á næstunni sett upp æfingaáætlun fyrir hverja viku fyrir sig eins og viðgekkst í fyrra og féll í góðan jarðveg.     

 

 

 

 

   


Enn lengir daginn og bjart er yfir...

Góð tíð hefur verið undanfarið svo hlaupin hafa gengið vel fyrir sig, auk þess sem daginn er farið að lengja verulega. Bjart er orðið til klukkan að ganga átta á kvöldin svo ekki er komist hjá því að hugsa til vorsins, sem færist nær, og ritari minnist þess að hafa yfirleitt heyrt í fyrstu Lóunni síðla mars.  

Þau sem hafa verið iðin við láta sjá sig í hlaupunum undanfarið eru: Ágúst, Villi, Jói, Sigurlaug, Ögmundur, Sævar, Birna, Lilja og Friðþjófur. Anna og Sissa eru farnar að sjást líka og vonumst við til þess að fleiri fari að detta inn.

Sævar, Villi, Ögmundur, Jói og ritari fóru í Atlantsolíuhlaupið á fimmtudaginn og skemmtu sér vel í vel heppnuðu hlaupi við góðar aðstæður. Verðugir fulltrúar Álftnesinga þar. Seinasta Powerade- hlaup vetrarins fer fram 8. mars og eigum við von á því að Sævar, Ögmundur og ritari verði þar, en þeir hafa tekið þátt í nær öllum hlaupum vetrarins til þessa. Gaman væri ef fleiri tækju þátt þann dag því bjart er orðið á þessum tíma.

Frá og með laugardeginum 3. mars verður hlaupið kl: 9:00 frá íþróttahúsinu s.s. sumartími. Aðrir tímar hlaupa halda sér óbreytt samkvæmt venju.

  


Daginn lengir á ný, stefnum á útrás!

Loksins eru allir vegir færir hér á Álftanesi en mikil ótíð hefur sett strik í reikninginn hjá hlaupurum undanfarnar vikur. Álftanesvegurinn varð fyrst fær liðna helgi, en hann hefur verið lokaður síðan fyrir jól. Nokkrir jaxlar hafa haldið uppi hlaupunum ca 5-8 manns, þeir láta fátt aftra sér þegar hlaup eru annars vegar. Með betri tíð vonumst við til þess að fleiri fari að láta sjá sig og njóta útiverunnar með okkur.

Við viljum vekja athygli á því að nokkrir meðlimir SÁ, ca. 8-10 manns. Eru að skoða það að taka þátt í hlaupi erlendis þ.e.a.s. Amsterdam-maraþoninu sem er haldið 21. okt. 2012. Er boðið uppá 3. vegalengdir, 42, 21 og 8. km. http://www.tcsamsterdammarathon.nl/en/ Er öllum velkomið að slást í hópinn með okkur og vera með en skráning fer fram á uppgefinni vefslóð á meðan laust er í hlaupið. Þetta er spennandi markmið sem gaman er að keppa að með góðum undirbúningi, og enda gott hlaupaár í þessari sögufrægu borg.    

 


Gleðilegt nýtt hlaupaár

Nú er runnið upp nýtt hlaupaár og um leið kveðjum við það gamla. Ef farið er yfir það gamla þá er ekki annað að sjá en það hafi verið viðburðaríkt og augljóst að tilgangi hlaupahópsins hafi verið náð því um tveir tugir manna stunda hlaupin með misjafnri ástundun héðan frá íþróttahúsinu. Nokkrir mæta í hvert einasta hlaup, en aðrir detta inn með hléum á milli eftir því hvernig vindarnir blása hverju sinni. Margir eru farnir að setja sér markmið í upphafi nýs árs eins og t.a.m. Vormaraþon FM., Rvk.-maraþonið, Laugaveginn og nokkrir eru að skima eftir hlaupum erlendis sem er nýlunda en eðlilegt framhald góðra æfinga.

Veturinn heilsaði með bravúr í lok nóvember, og hefur verið langvarandi ótíð síðan, svo mjög að vart hefur verið hægt að fóta sig um nesið nema með mikilli varkárni. Hefur því ástundun hlaupa verð í lágmarki síðan en þó hafa alltaf einhverjir jaxlar mætt sem hafa boðið Kára byrginn og haldið uppi merki SÁ sem er afrek út af fyrir sig því ekki er mjög skjólsamt á Álftanesi eins og allir vita.

Sjö manns mættu í Gamlárshlaup ÍR og skemmtu sér vel við góðar aðstæður í lok ársins og svo hafa 2-3 meðlimir tekið þátt í Powerade-hlaupinu sem er haldið mánaðarlega í vetur og er aldrei aflýst sama hvernig viðrar. 

Bloggskrif ritara hafa verið í lágmarki undanfarið en hann hefur sent út línur vikulega frá því skokkhópurinn var stofnaður eða bráðum eitt og hálft ár. Munu skrifin vera haldin áfram með um viku til tveggja vikna millibili eða eftir því sem þörf er á en við munum m.a. koma á framfæri æfingaáætlunum þegar veður leyfir á ný.

Þeir sem hafa verið iðnir við að mæta undanfarið eru: Ágúst, Sævar, Villi, Ögmundur, og ritari. Nokkrir eru að detta inn eins og Jói, Sigurlaug, Dóra, Þórarinn. Vonumst við til að en bætist við þegar daginn fer að lengja.

Nýjárskveðja, Friðþjófur 

 


Að safna punktum fyrir jólaveislunni!

Það er að rofa til í veðri og um leið hefur fjölgað í hlaupum seinustu viku. Greinilegt er að meðlimir ætla að ná sér í inneign fyrir jólaveislunni og nýta sér þennan ódýra og skemmtilega máta sem hlaup eru til þess. Það er enn snjóþungt með fram Álftanesveginum og hefur því verið farið um Garðaholtið báðar leiðir þegar farið er til Hafnafjarðar. Vonandi lagast þetta á næstu dögum.

Æfingar ráðast af veðri hverju sinni, en ekki verða teknir sprettir nema hálkan hverfi alveg. Gamlárshlaup ÍR verður eins og undanfarin ár og ætlum við SÁ menn að fjölmenna í þann skemmtilega viðburð sem markar enda hlaupaársins. 

 


Erum enn að!

Það hefur orðið heldur betur viðsnúningur í veðrinu frá því seinast var skrifað. Vikuna 13 -20 nóv. var búið að vera blíðskapaveður og var fyrirsögnin þá vikuna, "Vorblíða að vetri til". Síðan þá hefur kyngt niður snjó og frost farið niður í -10°c. Sér ekki fyrir endann á kuldakastinu og greinilegt að við verðum að vera við öllu búin hvað veður varðar, í það minnsta næstu viku í viðbót.

Þátttaka í hlaupum hefur minkað sökum veðursins en jaxlarnir sem eftir eru, hafa haldið úti hlaupum, og láta ekkert aftra sér frá því að halda þeirri iðju áfram.

Þau sem hafa haldið uppi hlaupunum undanfarið eru: Birna, Dóra, Sævar, Ágúst, Lilja, og ritari.

Minni á Powerade-hlaupið á fimmtudaginn 8. des. og Gamlársdags-hlaupið 31. des. kl. 12.       


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband