Seinasta vika !
21.11.2010 | 22:23
Eitthvað hefur dregið úr mætingu í hlaup undanfarið og má vafalaust tengja það ýmsu. Skammdegið er að ná hámarki og einnig er farið að kólna og ísingar farið að gæta. Til eru svo þeir sem er eru komnir með "jólaskjálfta," þ. e. eru farnir að huga að jólunum með allskonar undirbúningi og bollaleggingum og hafa vart tíma fyrir jafn lítið viðvik sjálfu sér til góðs eins og t. a. m. að hlaupa. En svo ég upplýsi um og hafi nú eftir eitt gott ráð sem mjög virt húsmóðir í vesturbænum sagði frá. - "Eftir að ég fór út að hlaupa og kom svo inn til mín, þá rann upp fyrir mér ljós. Undirbúningurinn og skipulagið fyrir jólahaldið reyndist miklu auðveldara og jafnvel enn auðveldara eftir því sem ég hljóp lengra og oftar." Er þessi kona víst enn að þótt komin sé vel við aldur.
Varðandi skammdegið og myrkrið þá var ég búinn að tala við hann Áka þjálfara hjá UMFÁ. Hann vinnur hjá VÍS og ætlar að útvega okkur sjálflýsandi vesti. En dráttur hefur verið á afhendingu þeirra vegna innflutningsaðila. Ættum við hlauparar því að vera dugleg að finna til endurskinsmerki og skærlitan fatnað þar til að vestin koma.
Mánudagur: Í hlaupið mættu Dista, Birna og ritari. Konurnar fóru Álftaneshring og Skátahring að auki en ritari fór Bessastaðanes, Álftaneshring og Skátahring. Frekar hvasst og kalt en líðan góð í hlaupi.
Miðvikudagur: Ágúst, Óli og ritari fóru Garðaholtið. Birna og Dista fóru Blikastíg, Álftaneshring og Skátahring. Anna og Sissa mættu seinna í hlaupið og hef ég því ekki fréttir af þeirra afrekum. Veruleg hálka var en gott veður.
Laugardagur: Ritari mætti einn í þetta hlaup og hélt uppi heiðri Skokkhóps Álftaness með því að halda keðjunni óslitinni. Dugði því ekkert minna en hálft maraþon (21km) og var hlaupið að Vífilsstaðavatni, hringur um vatnið og til baka. Frábært veður 5° hiti og aðstæður hinar bestu. Mæli hiklaust með þessu á laugardögum.
Flokkur: Seinasta vika ! | Facebook
Athugasemdir
Ég,Anna og Lilja bættum svo upp skokkhópinn í dag sunnudag og tókum Bessastaðahring í frábæru veðri. Áki talaði um að vestinn kæmu ekki fyrr en um mánaðarmót!! Sjáumst á morgun;=) kv sissa
Sissa (IP-tala skráð) 21.11.2010 kl. 23:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.