Færsluflokkur: Bloggar

Vel heppnuð hlaupakynning í boði skokkhópsins

Hlaupakynningin hjá Sigurði P. Sigmundssyni heppnaðist vonum framar og mættu á fjórða tug manna til á hlíða á Sigurð flytja fyrirlestur um hlaup og hlaupatengd málefni.

Þátttakan var með eindæmum því mótshaldarar héldu að aðsókn yrði dræm sökum þess að forkeppni Eurovision fór fram á sama tíma, en annað kom á daginn. Í lok fyrirlestrar sýndu nær allir gestir mikinn áhuga á að taka þátt í hlaupanámskeiði fyrir byrjendur og lengra komna sem hefst 27. maí og verður fyrirkomulag námskeiðsins auglýst á næstu dögum. 


Hlaupakynning

Hlaupakynning fyrir byrjendur og lengra komna hjá Skokkhópi Álftaness

Skokkhópur Álftaness býður íbúum Álftaness, Garðabæjar og öðrum, óháð búsetu, til kynningarfundar um hlaup og hlaupatengd efni.

Skokkhópurinn hefur fengið til sín Sigurð P. Sigmundsson hlaupaþjálfara og fyrrum íslandsmeistara í maraþonhlaupi til að halda fræðsluerindi um hlaupaþjálfun þar sem farið er yfir þau grunnatriði sem skipta máli fyrir þá sem eru að byrja að hreyfa sig.

Í erindi Sigurðar verður m.a. fjallað um eftirfarandi: Tilgang, markmiðssetningu, áhrif hreyfingar, samsetning þjálfunar, æfingaáætlanir, mataræði, útbúnað, meiðslaforvarnir og undirbúning fyrir þátttöku í almenningshlaupum.

Staður og stund: Í sal Álftanesskóla, fimmtudaginn 16. maí kl. 20:00 (aðgangur ókeypis).

Í framhaldi af þessum kynningarfundi mun skokkhópurinn skrá þá niður sem gætu hugsað sér að æfa samkvæmt byrjendaáætlun Sigga P. með vikulegum heimsóknum hans og eftirfylgni fyrst um sinn. En það er háð þátttöku hvort að af því geti orðið.

Já, kæru skokkarar, nú er lag að koma skipulagi á hlaupin og skella sér á kynningu hjá Sigga P. Vorið er komið og tilvalið að setja sér markmið fyrir sumarið. Nánari upplýsingar: https://www.facebook.com/groups/skokkhopuralftaness/ Friðþjófur- diddo@hive.is Lilja- liljavattnes@hotmail.com


Skokkfréttir, Skokkhóps Álftaness

Eftir að vetur fór að styttast og daginn að lengja, þá varð loksins betra að athafna sig á hlaupunum, eftir langan og strangan vetur sem oft var hlaupurum erfiður. Er birtunni og lengingu dagsins samfara því tekið opnum örmum, um leið og fyrstu farfuglarnir fá kynningu í fjölmiðlum, líkt og þjóðhöfðingjar væru þar á ferð. Já það er ljóst að vorið er í nánd og vegna þess erum við fljót að gleyma harðindum vetrarins.

Nú eru almenningshlaupin að hefjast, og byrja á Víðavangshlaupi ÍR(5 km) á sumardaginn fyrsta og þar á eftir Vormaraþon FM (21 og 42 km). Eftir það er mjög stutt á milli hlaupa fram á haustið, en mjög mikil aukning og framboð er á almenningshlaupum seinustu árin. Margur vill vera með í þessum hlaupum og setja sér markmið, en aðrir vilja bara vera með og njóta þess að hitta aðra hlaupara.

Ég vil minna á hlaupanámskeiðið sem við höfum áður auglýst og er laugardaginn 28. apríl. Viðtökur hafa verið góðar og er ekki vafi á að þetta á eftir að vera gott innlegg í hlaupaflóru okkar Álftnesinga. Skráning er hjá Friðþjófi í netf. diddo@hive.is  

Einn af vorboðum okkar er það að fjölga fer í umferð gangandi og hlaupandi vegfarenda. Erum við SÁ-hlauparar engin undantekning þar, því þátttaka hefur aukist seinustu daga. Reynum við að taka vel á móti nýju fólki og leiðbeina þeim gegnum fyrstu skrefin. Verður á næstunni sett upp æfingaáætlun fyrir hverja viku fyrir sig eins og viðgekkst í fyrra og féll í góðan jarðveg.     

 

 

 

 

   


Seinasta vika!

Mikil umferð hlaupara hefur verið um Álftanes síðastliðna viku, og náði hún hámarki á laugardagsmorguninn er nesið iðaði af lífi. Fóru hlauparar í flokkum líkt og Skagfirskt stóð á leið til rétta og máttu sín lítils hlaupararnir frá SÁ er þeir hlupu á móti hersingunni í byrjun hlaups. Annars hefur þátttaka okkar manna verið að komast í gang og vonandi bætist í hópinn með hækkandi sól, því nú er daginn farið að lengja og munar um hverja vikuna er líður.

Þessa viku skulum við halda okkur við sama æfingaprógramm líkt og seinustu tvær: Mánudagur brekkusprettir - Miðvikudagur tempóhlaup - Laugardagur lengri hlaup

Á fimmtudaginn 27/1 kl. 19:00 er 5 km. hlaup sem FH stendur fyrir, og er hlaupið meðfram höfninni í Hafnarfirði og er um tímatöku að ræða. Kannski einhverjir skelli sér! Nánar á hlaup.is

Hlaup seinustu viku er eftirf....

Mánudagur: Dista, Birna, og Jói fóru Álftanes- og Skátahring - Ágúst, Sissa og ritari fóru Álftaneshring og tókku að auki 4*200m brekkuspr. í Sótabrekkunni. Snjór var yfir öllu og mikil hálka undir.

Miðvikudagur: Ágúst, Bjarni, Hrefna,og ritari fóru Garðaholtið og sumir Túnahring að auki - Birna fór Álftaneshring - Gréta kona Bjarna er ný í hópnum, og fór stóran Skátahring. Mikil sv- hríð og allir vel blautir.

Laugardagur: Sigurlaug, Jói, Anna og Sissa fóru Garðaholtið - Ritari fór Das- og Skátahring.

 

 


Seinasta vika !

Á mánudegi mættu í hlaup: Ágúst, Anna, Birna, Dista, Villi og ritari. Ágúst, Anna og ritari fóru að Hliði og enduðu með því að klára Álftaneshringinn, byrjuðu með 1.5 í upphitun og tóku svo 6*300 m. spretti með 200 m. joggi á milli og niðurhlaup. Aðrir fóru Álftaneshring + Skátahring. 

Á miðvikudegi voru mætt: Sissa, Anna, Óli, Hrefna og ritari. Allir nema Hrefna fóru Jörfahring í mjög fallegu veðri. Hrefna fór 3 km varlega því hún á við þrálát meiðsli í kálfa. Ritari endaði í heitu pottunum nýmáluðum og viðgerðum, með Hrefnu og Óla.

Á fimmtudegi hleyptu fákum sínum í Poweradehlaupi þeir Ágúst og ritari. Var mikill strekkingsvindur með um -4° frosti er beit vel í kinnar. Þátttaka var allgóð og tími okkar örlítið betri en seinast, endað í heita pottinum er var svo þéttsetinn að jaðraði við að einn skytist uppúr við hvern nýjan mann.

Laugardagshlaupið hljóp ritari einn og frjáls eins og fuglinn. Var frekar þungur á mér enda búinn að vera í þrekbúðunum alræmdu hjá Jóhanni Emil. 

 


Vikan 31/10 - 7/11´10

Mánudagurinn heilsaði með blíðu, eða 4°c og nánast logn. Mættir í hlaup: Ágúst, Birna, Dista, Anna, Villi og ritari. Fórum hefðbundinn Álftaneshring og bættu sumir við Skátahring. Þeir sem verið höfðu á þrekæfingu (Tapada) hjá Jóa á laugardagsmorgninum voru ekki tilbúnir til neinna afreka þennan dag því ennþá var vart við eftirköst æfinganna í formi verkja í fram- og afturlærum svo verkjaði undan.

Miðvikudagur: Ritari var ekki á staðnum sökum vinnu sinnar, og mætti því ekki. En það gerðu hinsvegar þau Ágúst, Sissa, Anna, Birna og Dista. Frost var og byrjað að snjóa svolítið. Ágúst, Anna og Sissa fóru Garðaholtið en aðrir Álftaneshringinn. Ritari fór daginn eftir Dashring+Túnahring.

Laugardagurinn var fremur viðburðalítill. Í hlaup voru mætt: Ágúst, Sigurlaug og ritari. Sigurlaug vonaðist til að Birna mætti í hlaup, en hún var vant við látin sökum meintra nýrnasteinaverkja er hún átti við, og varð til þess að hún eyddi aðfaranótt föstudagsins á sjúkrahúsi með bónda sínum. Er hún öll á batavegi og vonast jafnvel til þess að geta farið að láta sjá sig eftir helgi. Annars hlupum við Ágúst Garðaholtið og bætti ritari við Álftaneshring í lokin. Gott veður en nokkuð kalt og voru Hafnfirðingar í mörgum hópum á ferðinni um Álftanesið.

"Næsta fimmtudag kl. 20:00 verður annað Powerade hlaup vetrarins og vilja ritari og Ágúst eindregið mæla með því. Fjölmennt og skemmtilegt hlaup". 


Vikan 24/10 - 31/10

Vikan byrjaði með viðvörun veðurstofu um hvassa norðanátt. Kom það ekki í veg fyrir að fimm manneskjur mættu í mánudagshlaupið. Það voru Sigurlaug, Ágúst, ritari og einnig mæðgurnar Elínborg og Harpa er voru að mæta í fyrsta sinn. Ágúst og ég fóru Bessastaðanesið, Sigurlaug og mæðgur fóru Túna- og Álftaneshring. Mættum við Ágúst strax miklum mótbyr í fangið en fundum það að það var hlýrra en búast mátti við. Mikilfengleg sjón veðurs og birtu var alla leið og ekki spillti fyrir er 50 til 60 hesta stóð í öllum litum, kom hlaupandi í fangið á okkur með tilheyrandi skvettum og dýfum. Er þetta ein af mínum uppáhaldsleiðum á Álftanesi.

Miðvikudagur rann upp með mikilli veðurblíðu, og ekki spillti fyrir að mikil þátttaka var í hlaupi dagsins. Alls 12 manns og einn hundur. Sissa, Anna, Ágúst, Villi, Óli, Lilja, Andrea, Birna, Dista, ritari, og mæðgurnar Elínborg og Harpa ásamt hundi sínum. 8 manns fóru Bessastaðanesið en aðrir Álftaneshring og aðrar styttri leiðir. Sumir lengdu í leiðum sínum í restina enda kvöldið fagurt í ljósaskiptunum.

Laugardagur: Í þetta hlaup mættu Birna, Dista, Sigurlaug og ritari. Ritari var ásamt fleiri meðlimum S.Á á æfingu með Þrekhópi Jóa, og var Tapada þema dagsins sem gestaþjálfari stýrði í þetta sinn. Að sjálfsögðu var tekið vel á að vanda svo að stundum mátti heyra stunur og gnístran tanna. Ritari var sá eini sem bauð sig fram í lengri hlaupin kl. 1o. en aðrir sögðust (þóttust) ætla seinna um helgina. Fór ritari með hlaupurum dagsins af stað Álftaneshringinn og bætti svo við Dashringnum í  kaldri og hvassri norðanátt.

Vek athygli á því að það er samskokk allra hlaupahópa á höfuðborgarsvæðinu haldið kl. 17.30 alla fimmtudaga nema þegar Poweradehlaupin eru. 

 


Powerade vetrarhlaupin !

Fimmtudaginn 14. okt. fer fram fyrsta hlaup úr Powerade - hlauparöðinni. Verður það haldið annan fimmtudag í hverjum mánuði fram í mars 2010. Lagt er frá Árbæjarsundlauginni kl. 20:00. Miðar eru seldir í anddyri laugarinnar á kr. 300 og einnig í forsölu í Afreksvörum í Glæsibæ.

http://www.hlaup.is/dagbok.asp?cat_id=5&module_id=220&element_id=22641


Veðrið leikur við skokkara !

Það er ekki annað hægt að segja en að veðrið leiki við skokkara þessa dagana. "Hefur verið gott og verður gott næstu daga."

Við höfum verið að setja upp æfingaáætlanir fyrir síðastliðnar vikur sem hefur gefist vel. Athygli skal vakin á því að ef einhverjum þykir þær helst til erfiðar, þá á viðkomandi bara að draga úr magninu eftir getu sinni. Sprettir á brautum og brekkusprettir, ásamt áfangahlaupum eru æfingar sem skila sér í auknu úthaldi síðar. Við reynum að setja þetta upp svo að virki aðlaðandi fyrir byrjendur sem lengra komna.

Það er enn pláss fyrir nýliða í skokkhópnum, en athygli er vakin á því að við viljum hafa rúmt á okkur er við örkum um víðlendur Álftaness. Það er því betra að mæta sem fyrst til að tryggja nægt rými.


Stofndagur Skokkhóps Álftaness

Miðvikudagurinn 15. september 2010 var stofndagur Skokkhóps Álftaness. Í tilefni dagsins var boðið upp á að hlaupa nokkrar mismunandi vegalengdir, sem hafa verið mældar út og settar á kort í íþróttahúsinu. Er það gert til hægðarauka fyrir þá sem vilja vita hve langt er hlaupið og hvaða leið sé best að fara.

Ekki voru veðurguðirnir á okkar bandi þennan stofndag Skokkhóps Álftaness, norðan 12-15 metrar og svalt. Enda mættu einungis 11. manns í hlaupið. En það voru brosmildar hetjur sem luku hlaupi þennan dag og eftir situr, að nú eiga Álftnesingar sinn eigin hlaupahóp sem á bara eftir að vaxa og dafna í fyllingu tímans. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband