Skokkhópur Álftaness
Enginn almennur hlaupahópur hefur áður verið til á Álftanesi. Sumir hafa verið að hlaupa á eigin vegum en hafa ekki haft tækifæri til þess að hlaupa með öðrum, vegna þess að almenningshlaup hér hefur ekki farið fram með skipulögðum hætti hingað til.
Að fara í næstu bæjarfélög er jú einn kosturinn, en hver vill nú ekki geta haft tækifæri til þess að hlaupa í eigin bæjarfélagi, og losna við að fara úr einum stað á annan bara til þess að hlaupa með öðrum á meðan aðstaðan er til staðar hér.
Nú er tækifæri fyrir almenning á Álftanesi að skrá sig í hlaupahóp og stunda útihlaup með öðrum og njóta okkar fallegu náttúru hér sem og víðar. Stofnaður hefur verið hlaupahópur undir formerkjum UMFÁ sem mun bera nafnið "Skokkhópur Álftaness". Borið hefur á fyrirspurnum til UMFÁ um útihlaup í gegnum tíðina svo að nú hafa nokkrir aðilar er hafa verið duglegir að hlaupa úti í sumar, tekið sig saman og látið þetta verða að veruleika.
Tilgangur og markmið Skokkhóps Álftaness er að gefa almenningi tækifæri til þess að hittast, og stunda útihlaup, göngu eða aðrar styrktaræfingar. Allt eftir áherslum hvers og eins.
En eins og við vitum hefur almenningshlaup verið í mikilli sókn síðustu árin. Hlaupahópar hafa sprottið upp eins og gorkúlur, og keppnishlaup fyrir almenning eru orðnir mjög tíðir viðburðir. Þar hefur margur fundið keppnismanninn í sjálfum sér og getað borið sig saman við mann og annan og uppgötvað það að lengi getur lifað í gömlum glæðum. En eitt hafa dæmin sannað, það er það að aldrei er of seint að byrja. Því einstaklingur sem kemur sér reglulega út til hreyfinga finnur fljótt til betri líðan. En það er með hlaup eins og annað að viðkomandi uppsker eins og hann sáir.
Með tilkomu þessara glæsilegu íþróttamannvirkja hér, hefur skapast vettvangur fyrir skokkara og fleiri að hittast og að njóta í lok hvers hlaups, þeirrar þjónustu sem hér er í boði eins og sundlaug, pottar, gufuböð og fleira. Þjónusta sem allir geta verið stoltir af en virðist vera vannýtt ef eitthvað er. Getur góður hlaupahópur glætt svona mannvirki lífi og verið góð viðbót í okkar samfélagi.
Viljum við sem stöndum að þessu framtaki eindregið hvetja Álftnesinga til þess að koma og prófa að vera með. "Betra er seint en aldrei. En samt aldrei of seint".
Ábyrgðarmaður Friðþjófur Th. Ruiz